Deprecated: Assigning the return value of new by reference is deprecated in /home/keinbetr/public_html/wp-settings.php on line 204

Deprecated: Assigning the return value of new by reference is deprecated in /home/keinbetr/public_html/wp-settings.php on line 219

Deprecated: Assigning the return value of new by reference is deprecated in /home/keinbetr/public_html/wp-settings.php on line 226

Deprecated: Assigning the return value of new by reference is deprecated in /home/keinbetr/public_html/wp-settings.php on line 233

Deprecated: Assigning the return value of new by reference is deprecated in /home/keinbetr/public_html/wp-settings.php on line 258

Deprecated: Function set_magic_quotes_runtime() is deprecated in /home/keinbetr/public_html/wp-settings.php on line 27
keinbetreff

Ný númer

3 September 2007 | Andrés og Rúna | 367 Comments

Jæja, þá erum við búin að festa okkur farsímanúmer. Aðdáendum ætti að vera óhætt að henda út þeim mýgrút af númerum sem upp hafa safnast og láta þessi tvö duga.

Andrés 892 5427

Rúna 891 6301

Ofvirk?

29 August 2007 | Rúna | 426 Comments

Gærdagurinn hlýtur að vera afkastamesti dagur lífs míns. Þegar ég fór að sofa í nótt hafði ég afrekað eftirfarandi:

Á dagskránni í dag er bara áframhaldandi pökkun, yfirlestur á ritgerð og hreingerningar. Það er ekki laust við að manni leiðist bara.

Annars eru tveir dagar í flutninga. Og ég er farin að hlakka til.

Ellismellir

14 August 2007 | Rúna | 56 Comments

Nýjasta fíknin á heimilinu eru krossgátur. Ég bíð með óþreyju eftir helgunum, ekki til að djamma, heldur til að leysa helgarkrossgátur Moggans. Laugardagsgátan er klassísk, en sunnudagsgátan er toppurinn á tilverunni þessa dagana. Það var reyndar Andrés sem kom mér upp á lagið með hana. Nú sitjum við skötuhjúin eins og gömul hjón með sitthvora gátuna hvern sunnudag og spreytum okkur. Og reyndar endist gamanið út vikuna því gátan er svo helv*** þung.

Annað ellimerki: í dag hóf ég jólagjafakaup! Nú er maður orðinn svo hagsýnn að kaupa það sem hægt er að kaupa áður en sagt er bless við útlandaverðlagið.

Já, ég er orðin ósköp þroskuð eitthvað. Sem betur fer verður Andrés eldri en ég eftir tvo daga, og þá þarf mér ekki að líða eins og gamalli geit lengur.

Olga

2 August 2007 | Rúna | 301 Comments

Í gær gerði ég eitthvað sem hefur staðið til í langan tíma en ég hef aldrei komið í verk: ég keypti mér ný gleraugu. Þessi kaup voru orðin algjörlega tímabær þar sem gleraugun sem ég á núna eru frá síðustu öld og þar af leiðandi hvorki nógu sterk né nógu töff (þó þau séu, eins og Andrés benti mér á, mun skárri en þau sem ég var með framan á andlitinu á unglingsárum). Ég skellti mér því á umgjörð sem er meira í takt við tímann.

Álit mitt á nýju gleraugunum tók samt stökk niður á við þegar starfsmaðurinn fyllti út pöntunarseðilinn fyrir mig. Umgjörðin ber nefnilega nafnið ‘Olga’. Og þar sem mér finnst nafnið Olga algjörlega laust við allan kynþokka og sjarma get ég ekki ímyndað mér að gleraugu með því nafni geri nokkurn mann aðlaðandi. Bara ef þau hefðu heitið ‘Laura’ eða ‘Alice’ eða eitthvað…

Ágúst

1 August 2007 | Rúna | 358 Comments

Dagatalið sýnir, mér til mikillar furðu, að ágústmánuður sé runninn upp. Það er því ekki úr vegi að tilkynna þeim sem ekki vita að við erum á leiðinni heim í haust. Fyrir fullt og allt. Eða að minnsta kosti í nokkur ár.

Nú eigum við bara eftir að klára mastersritgerðirnar okkar, finna okkur vinnu og kaupa okkur íbúð. En það er allt í vinnslu.

Hvort grasið er grænna?

19 July 2007 | Andrés | 528 Comments

Á meðan umhverfisvinum Sigga pönk er lýst sem „hampreykjandi hippapakki“ heima á Íslandi hefur stórfurðuleg tíska komist af stað meðal háttsettra breskra stjórnmálamanna. Síðasta sólarhringinn hafa þeir keppst við að játa í fjölmiðlum að hafa neytt kannabisefna á yngri árum.

Íslendingar setja semsagt samasemmerki á milli þess að vera iðjuleysingi og reykja hass. Breskir stjórnmálamenn nota sömu reykingarnar hinsvegar til að slá ryki í augu kjósendanna — núna gleymir þjóðin í stundarkorn því að henni er stjórnað af rykugum karl- og kvenfauskum, en ekki uppreisnagjörnu hugsjónafólki.

Breytt heimsmynd og allt það..

9 July 2007 | Rúna | 4 Comments

Á laugardaginn, sem virðist hafa verið eini góðviðrisdagurinn á sunnanverðu Englandi í sumar, ákváðum við að skella okkur í lautarferð til Lundúna. Það var gömul kunningjakona, hin danska Helene, sem stóð fyrir fjörinu og ekki spillti fyrir að von var á henni Katie frá Edinborg líka.

Það var á leiðinni á lestarstöðina í Brighton sem ég fékk hrikalegan hnút í magann. Ég áttaði mig allt í einu á dagsetningunni – 070707 – sem væri örugglega tilfallin fyrir hryðjuverkamenn að nýta sér, og þar að auki tvö ár upp á dag síðan lestirnar og strætóinn voru sprengd í loft upp í Lundúnum. Ekki skánaði ástandið þegar við vorum komin inn í lestina því starfsfólkið virtist hafa alveg jafn miklar áhyggjur og ég. Hvað eftir annað heyrðist rödd í hátalaranum biðja gesti um að vera nú dugleg að skima í kringum sig og ýta á takka ef einhver ferðafélaginn hegðaði sér grunsamlega. Svo vorum við líka látin vita af því að á lestarstöðvum í Lundúnum væru verðir að leita að vopnum á fólki.

Þegar ég hafði skimað vel og lengi í kringum mig og hlustað á Andrés útskýra að það væri tölfræðilega séð mjög ólíklegt við værum akkúrat í lest sem væri sprengd meðan við værum í henni fór ég að anda pínu léttar. En ég var nú samt ekki algjörlega róleg fyrr en við vorum komin undir heiðan himininn á Hampstead Heath.

Eftir svona erfiða ferð til Lundúna hefði mig aldrei grunað að ferðin heim yrði enn erfiðari. En það var á sunnudagsmorgni í lestinni til Brighton sem ég fór virkilega að halda að við myndum aldrei komast lifandi á leiðarenda. Eftir að hafa skemmt okkur allan daginn, allt kvöldið og alla nóttina, fyrst í garðinum og svo í eftirpartí hjá Helene með öðrum Norðurlandabúum og Katie, var heldur lágt á okkur risið þar sem við sátum í sætunum okkar og reyndum að halda okkur vakandi. Helþunn og dauðþreytt fylgdumst við með hryllingi þegar móðir hlammaði sér með öllum fimm börnunum sínum í kringum okkur. Fjölskyldan var greinilega á leiðinni í spilavítið á Brighton Pier og börnin voru hvert með sinn myntpokann sem þau hristu í gríð og erg. Þess á milli æptu þau, öskruðu, sungu ‘I believe I can fly’ og voru óþolandi á allan hátt. Verst var þó móðirin sem blótaði í öðru hverju orði og sagði öllum sem heyra vildu (eða vildu ekki) að drulla sér og fara í rassgat.

Einhvern veginn sluppum við lifandi úr þessari lestarferð dauðans. En ég á eftir að gera allt sem ég get til að halda mig frá lestum í drjúga stund á þessum síðustu og verstu tímum..

Aðlögunarhæfni?

17 June 2007 | Andrés | 2,049 Comments

Einu sinni fór í taugarnar á mér að flytja inní íbúð þar sem veggfóðrið virtist laust frá veggjunum. Síðan truflaði mig hvað gustaði gegnum íbúðina þegar veðrið lét vita af sér. Þá fóru köngulærnar, silfurskotturnar og maurarnir í taugarnar á mér.
Nokkrum mánuðum síðar hef ég lært að laga mig að breskum húsum og minnka pirringinn. Þegar veggfóðrið pokaðist loksins það langt frá veggjunum í holinu að ekki var lengur hægt að labba framhjá því óáreittur nýtti ég mér mesta skítmix í heimi.

Núna er kennaratyggjóklessum treyst fyrir veggfóðrinu okkar.

Arnarauga

15 June 2007 | Rúna | 7,440 Comments

Í morgun fór ég í sjónpróf hjá enskum augnlækni. Við vorum bæði jafn hissa yfir því hvað mér gekk vel að þylja upp stafina á veggnum hans, enda hefur sjón mín farið versnandi með hverju árinu síðan ég var krakki.

Svo fattaði ég loksins að maður á víst að taka úr sér linsurnar áður en sjónprófið hefst.

Icelander in New York

23 May 2007 | Rúna | 1,960 Comments

Fyrir þá sem ekki vita erum við skötuhjúin í henni Ameríku þessar vikurnar. Aðaltilefni ferðarinnar var útskrift Siggu systur sem hlaut doktorsgráðuna sína um helgina. Auk þess höfum við verið að kynna okkur úthverfastemningu New Jersey-fylkis þar sem eru hlutfallslega fleiri jeppar en í Reykjavík, take-out staðir fyrir allan mat sem hugurinn girnist og virkilega almennilegt fólk.

Mánudagurinn var stór dagur í Bandaríkjunum. Um kvöldið kom nefnilega í ljós það sem allir hafa beðið eftir í heilan vetur: a) mun Jack Bauer bjarga heiminum? og b) munu Hiro, Peter Petrelli og co. bjarga heiminum? Við höfum reyndar engin svör fengið við þessum spurningum því það hefur lítið verið horft á sjónvarp í ferðinni. En þegar við kíktum á New York í gær virtist allt í stakasta lagi. Borgin skartaði sínu fegursta þegar sólin var að setjast, um það bil um sama leyti og ég borðaði á mig gat af sushi. Og hún kippti sér lítið upp við að Andrés skyldi syngja Mr. Boombastic í karókí ásamt sirka hundrað öðrum lögum. Og þegar við vorum aftur komin til New Jersey í morgunsárið og sáum sólina koma upp yfir skýjakljúfum Manhattan var sko ekki að sjá að heimurinn væri í hættu.

Maður getur ekki kvartað.

Evrópublokkirnar

13 May 2007 | Andrés | 6 Comments

Það var óskaplega gaman að heyra Terry Wogan lýsa keppninni hérna. Tvennt truflaði hann framanaf; að Bretar væru með núll stig og að lönd kysu alltaf í blokkum. Þar nefndi hann sérstaklega Balkanskaga, Íberíuskaga, Austur-Evrópu og Norðurlönd. „Again, they vote in blocks,“ sagði hann og dæsti.

Loksins duttu svo inn stig hjá Bretum þegar grannríkið Írland og samveldisríkið Malta lásu upp sínar niðurstöður. Þá kvað annað við hjá kallinum. „You can always count on the Irish,“ og „the George Cross island turns up with trumps,“ sagði hann hálfskríkjandi af kæti.

Og horfði algerlega framhjá því að breska lagið var lélegra en nokkuð austur-evrópskt þetta árið.

En djöfull var aumt hjá Íslendingum að hlýða kalli Eiríks tapsára og gefa Svíum og Finnum toppstigin. Finnska lagið leiðinlegt og sænska stolið (einsog venjulega).

ps. Óvenjumikinn áhuga minn á söngkeppninni þetta árið má örugglega rekja til þess að fyrir ári var ég fjarri góðu gamni — staddur í Íran, þar sem öllum er skítsama um Eurovision.

Ástríðan sem súra regnið drap*

11 May 2007 | Andrés | 42 Comments

Hvað gerist þegar eylandið sendir mátulega hallærislegan glansrokkara í Eurovision 1986 og endurtekur svo leikinn þegar hann er orðinn 21 ári eldri? Jú, þulir BBC neyðast til að nota afskaplega klisjukenndan brandara til að afkynna hann í undankeppninni:

Níundi áratugurinn er í símanum, Eiríkur. Hann vill að þú skilir sér síða hárinu og leðurbuxunum.

Mikið er ég ánægður að þetta rusl komist ekki áfram. Þeir sem væru líklegir með að stríða okkur útaf Eika eru vonandi ekki það miklir aðdáendur söngvakeppninnar að þeir horfi á undanúrslitin. Hefði Valentine Lost ratað inní keppnina á laugardaginn ættum við varla sjö dagana sæla hér í Brighton.

*Titill færslunnar er homage til snillingsins sem samdi enska textann við lagið okkar. „Passion killed by acid rain“ hlýtur að teljast með betri línum bókmenntasögunnar.

Lúxuskrísa

3 May 2007 | Rúna | 219 Comments

Þegar aðaláhyggjuefnið er hvaða pöbb maður eigi að fara á – Pitcher and Piano eða Lion and the Lobster – fer maður alvarlega að pæla í því hvort rétta mastersritgerðarefnið fáist við stuðlun.

Liverpool-slys

1 May 2007 | Rúna | 10 Comments

Rétt í þessu hrökk ég við í sófanum mínum. Hinu megin við stofuvegginn okkar, úr íbúð nágrannanna, heyrðist skyndilega mikið öskur. Meðan ég hlustaði með skelfingu á þetta garg fór ég ósjálfrátt að ímynda mér hvað hefði getað orsakað það. Var nágranninn búinn að skera af sér handlegginn við eldamennsku? Var hann með byssu innbrotsþjófs við gagnaugað? Eða var hann um það bil að missa blásandi hárþurrku í baðkarið sem hann lá í?

Í kjölfarið fór ég að hugsa um hvað ég ætti að gera í stöðunni. Allt í einu mundi ég ekki neyðarnúmerið í Englandi. 112? Nei, það er á Íslandi. 911? Nei, það var þátturinn með William Shatner og þar af leiðandi í Ameríku. En kannski væri rétt að banka upp á fyrst og gá hvort maður gæti hjálpað á staðnum áður en lögregla, sjúkrabíl og slökkvilið mætti á staðinn?

Eftir að því er virtist óratíma fóru öskrin að breytast. Þegar ég svo greindi hlátur og einhvers konar “júhú” runnu á mig tvær grímur. Ég tékkaði á netinu til að fá grun minn staðfestan.

Jú. Liverpool var að skora.

Tómur kofinn

12 April 2007 | Rúna | 513 Comments

Það er hálf tómlegt í kotinu okkar þessa dagana. Síðustu vikur hefur verið mikill og góður gestagangur, sem hófst með komu Svenna bróður og Þórhildar yfir rúma helgi. Nokkru seinna mættu Sigga og Þórir á svæðið sem íslenskir fulltrúar Norwich og báru saman bæina tvo af miklum móði. Ég er ekki frá því að Brighton hafi fengið fullt hús fyrir kúlheit, en endanlegar niðurstöður liggja fyrir í lok apríl þegar við höfum endurgoldið heimsóknina. Síðustu gestirnir í bili voru svo Bryndís, Ömmi og Jóhanna litla, sem heiðraði okkur allrækilega með því að tileinka okkur fyrstu utanlandsferðina sína.

Það er því ekki hægt að segja annað en að kaupin á hinu svokallaða “Ready Bed”, eða reiðurúminu eins og Andrés kallar það, hafi margborgað sig.

Bryndís og Ömmi björguðu páskunum með því að mæta með slatta af eggjum í ferðatöskunni. Á páskadag buðum við enskum og þýskum vinum okkar í mat, gáfum þeim páskaegg í eftirrétt og skemmtum okkur við að pína þau til að lesa málshættina sína upphátt. Svona breiðir maður út íslenska menningu hægri vinstri.

Já, kotið er tómlegt eftir allan félagsskapinn, en það er samt engin hætta á því að okkur leiðist. Eftir fjóra daga er nefnilega skilafrestur á ritgerðum vorannarinnar og þá þurfum við að vera búin að þrykkja niður 10.000 orðum á mann, takk fyrir. Eins og alltaf gerist í ritgerðarskrifum erum við búin að vera afskaplega dugleg við allt annað. Andrés hefur aldrei verið jafn afkastamikill í uppvaskinu og ég finn upp á því að lakka á mér allar neglur líkamans oft á dag.

Það verður gaman að fylgjast með því hvort uppvaskið og lökkunin taki upp jafn mikið af tíma okkar eftir mánudaginn næsta…

Ensku fréttirnar.

21 March 2007 | Andrés | 4,067 Comments

Í dag er fjallað um Kárahnjúka á fréttasíðu BBC. Loksins, segi ég, því ég bjóst alltaf við því að þurfa að svara miklu meira fyrir stóriðju og hvalveiðar Íslendinga en raun ber vitni. Kannski er það til marks um fréttamat fólksins í kringum mig að „stóru“ fréttirnar að heiman bliknuðu í samanburði við sjokkið sem það vakti þegar einhver Magnusson var farinn að stýra West Ham.

Á gervihnattaröld

15 March 2007 | Rúna | 196 Comments

Aldrei hætti ég að furða mig á því hvað tíminn líður hratt. Veturinn sem aldrei kom virðist vera á enda og tímasókn okkar Andrésar sömuleiðis. Já, í dag fórum við í síðustu tímana okkar við Sussex-háskóla. Næstu mánuði er það bara sjálfsaginn sem dugir og í lok ágúst ættum við að hafa snarað sitt hvorri mastersritgerðinni á prent.

Er til nokkur betri leið til að fagna frelsinu og vorinu önnur en að trítla á lestarstöðina, sækja bróður sinn og mágkonu og eyða frábærri helgi með þeim?

Morð í beinni?

7 March 2007 | Rúna | 57 Comments

Ein BBC-sjónvarpstöðvanna er farin að sýna ansi áhugaverða þáttaröð undir heitinu ‘Kill it, cook it, eat it’. Þarna er á ferðinni enginn venjulegur matreiðsluþáttur, því hráefninu er fylgt eftir frá því að það er spriklandi í sveitinni og þar til það liggur á fínum diski með kartöflum og sósu. Þannig er verið að vekja athygli fólks á því hvaðan maturinn sem það lætur ofan í sig kemur – ekki bara frá Tesco heldur er ferlið miklu, miklu lengra.

Í síðasta þætti voru litlu lömbin tekin fyrir, leidd til slátrunar í beinni og svo matreidd ofan í gesti í sjónvarpssal. Ýmiss konar fólk var þar saman komið, grænmetisætur sem brustu í grát við ófagra sjónina og hörðustu kjötætur sem sleiktu út um við tilhugsunina að fá að smakka ólíka parta lambsins.

Einn þessara parta var Íslendingnum kunnugur – hrútspungurinn sjálfur. En ólíkt því sem gerist á þorrablótunum gerði kokkurinn sér lítið fyrir og djúpsteikti herlegheitin. Mér fannst þetta bara líta nokkuð vel út í stökkum, gulum umbúðunum, ótrúlegt en satt.

En þarna er náttúrulega komin fyrirtaks markaðshugmynd: hvernig væri að bjóða Bretanum upp á djúpsteikta hrútspunga með frönskum í staðinn fyrir þetta sífellda ‘fish and chips’ sem allir hljóta að vera komnir með leið á? Skvetta smá ediki yfir og allir eru sáttir?

Labov-æði

6 March 2007 | Rúna | No Comments

Í gær veittist mér smávegis innýn í líf hinnar fullorðnu málvísindakonu. Ég vippaði mér upp í lest til Cambridge með nokkrum bekkjarsystrum mínum til að hlýða á einn frægasta málvísindamann samtímans, hinn ameríska William Labov. Svo settumst við stöllur á veitingahús eftir fyrirlesturinn og ræddum efni hans fram og aftur. Mjög fullorðinslegt allt saman.

Á fyrirlestrinum hittum við nokkra af kennurum okkar hér í Sussex sem líka voru komin að berja goðið augum. Ein þeirra, afskaplega dönnuð bresk kona, þaut á lappir um leið og Labov hafði sleppt síðasta orðinu með blað og penna í hönd og stillti sér upp í eiginhandaráritanaröðinni.

Mér finnst pínu fyndið að málvísindin skuli eiga sér goð og grúppíur. Það er verst að skipuleggjendum fyrirlestrarins datt ekki í hug að selja plaköt og stuttermaboli með myndum af karlinum. Slíkt hefði án efa runnið út eins og heitar lummur.

Sprengstoff?

20 February 2007 | Andrés | 59 Comments

Helginni vörðum við í góðum félagsskap í Berlín, þar sem við kíktum á þorrablót íslendingafélagsins. Harðduglegu stúdentarnir sem við erum tóku að sjálfsögðu nokkrar námsbækur með sér yfir sundið.

Efst í bunkanum hjá mér var stórskemmtileg grein sem heitir „What is al-Qaeda?“ og eftir því sem neðar dró varð lesefnið enn svæsnara. Ég gat fátt annað en vonað að engri flugvallarlöggunni dytti í hug að tékka sérstaklega vel á mér. Það gekk á leiðinni út, en Þjóðverjarnir á heimleiðinni létu ekki plata sig eins glatt og enskir kollegar þeirra.

Fyrst var bakpokinn minn tvískannaður í röntgengræjunni. Eitthvað þótti myndavélin mín grunsamleg, þannig að ég var leiddur í bakherbergi. Þar tók sérfræðingur lögreglunnar til við að strjúka myndavélinni með tissjúi, sem síðan var sett undir glerplötu í einhverju svakalegasta tæki sem ég hef séð. Þar var komið tromp flugvallarins — sjálf sprengiefnisleitarvélin!

Á meðan leysigeislar skönnuðu snýtuklútinn í leit dýnamítsögnum spurði aðstoðarmaðurinn mig spjörunum úr varðandi myndavélina. Ekki það að hann hafi haft einhverjar áhyggjur af mér — heldur hafði hann verið að spá í að kaupa sér sama módel. Núna veit hann þó að það er þrautin þyngri að komast í gegnum tollinn með hana…